Blóðgjöf og betra líf!

0
41

Vissir þú að með því að gefa blóð geturðu ekki bara að bjargað lífi annara heldur einni bætt þína eigin heilsu? Regluleg blóðgjöf getur minnkað líkur á mörgum sjúkdómum og heilsukvillum á vegu sem þú hefur örugglega ekki hugleitt áður.

Blóðbanki er mikilvæg stoð í heilbrigðiskerfinu okkar og bjargar mörgum mannslífum á degi hverjum. Blóðgjafar uppskera þó marga ávinninga sem vert er að benda á. Rannsóknir á þessum ávinningum eru takmarkaðar en hér verða taldir upp nokkur atriði sem hafa verið skoðuð.

Minni líkur á hjartasjúkdómum

Þegar þú gefur blóð ertu að losa líkamann við járn. Mikið magn járns í blóði hefur verið tengt aukinni hættu á hjartasjúkdómum. Þetta er vegna þess að járn getur stuðlað að myndun sindurefna (e. free radicals) í líkamanum, sem geta valdið oxunarálagi (e. oxidative stress) og skemmdum á frumum sem liggja í æðum. Uppsöfnun járns í blóðinu getur einnig stuðlað að blóðtappamyndun.

Bætt blóðflæði

Blóðgjöf getur hjálpað til við að bæta blóðflæði með því að draga úr seigju blóðs, sem aftur getur dregið úr hættu á hjarta- og æðasjúkdómum. Endurnýjun blóðhagsins viðheldur því góðu blóðflæði.

Dregur úr hættu á tilteknum krabbameinum

Regluleg blóðgjöf hefur verið tengd minni hættu á ákveðnum tegundum krabbameins, þar á meðal krabbameini í lifur, lungum, ristli og hálsi. Ástæðan fyrir því er aðallega sú að mikið járn í blóðinu getur aukið líkur á krabbameini, en einnig sú að blóðgjöf eykur andoxunarvirkni líkamans. Andoxunarefni hjálpa til við að hlutleysa skaðleg sindurefni sem geta valdið skemmdum á frumum og DNA, sem getur leitt til þróunar krabbameins.

Eykur framleiðslu nýrra blóðkorna

Blóðgjöf örvar framleiðslu nýrra blóðkorna og annara blóðhluta, sem getur bætt heilsu og vellíðan. Blóðkorn eru framleidd í beinmergnum, og með reglulegum blóðgjöfum heldurðu þessari framleiðslu stöðugt við.

Bætt lifrarstarfsemi og insúlín-næmi

Rannsóknir hafa leitt í ljós að blóðgjafar hafi heilbrigðari lifrarstarfsemi. Þá virðast blóðgjafar hafa lægra magn af lifrarfitu og bætt insúlínnæmi samanborið við þá sem ekki gefa. Gott insúlín-næmi er lykilþáttur í efnaskiptajafnvægi líkamans og allri orkustjórnun hans.

Aðrir hugsanlegir ávinningar

Sumar rannsóknir benda til þess að regluleg blóðgjöf geti minnkað líkur á Alzheimer sjúkdómnum. Regluleg blóðgjöf er líka talin bæta getu líkamans til að græða sár með aukinni framleiðslu ákveðinna vaxtaþátta. Margt bendir til dæmis til þess að þeir sem þurfa að fara í aðgerð þar sem mikill blóðmissir á sér stað, séu fljótari að jafna sig ef þeir gefa blóð reglulega.

Blóðrannsóknir Blóðbankans – ókeypis heilsufarsskoðun!

Saga blóðgjafa hófst snemma á 19. öldinni. Blóðbankinn á Íslandi á sér merkilega sögu (sem má lesa á heimasíðunni þeirra), en hún hefst árið 1935 þegar blóðgjafasveit Rover-skáta Væringjafélagsins í Reykjavík tók til starfa en 1953 var formlegur Blóðbanki stofnaður.

Einn af frábæru kostum þess að gefa blóð í Blóðbankanum er sá að hver einasta blóðgjöf er skoðuð og skimuð. Þau mæla magn blóðrauða, hvítkorna, járnbirgðir, blóðvökva og mörg önnur gildi í blóðinu. Fyrsta viðbragð líkamans við sjúkdómum er að magn hvítra blóðkorna eykst og aðrir þættir fara líka úr jafnvægi. Því fyrr sem slík breyting er fundin, því meiri líkur eru á hægt sé að koma auga á mögulegan sjúkdóm á fyrstu stigum. Þegar Blóðbankinn sér óeðlileg gildi er haft samband við blóðgjafann og hann er boðaður í frekari skoðun. Þetta eitt og sér er mögulega besta heilsufarsskoðun sem er í boði hér á landi. Auk þess eru allar blóðgjafir skimaðar fyrir HIV veiru og lifrabólgu B og C.

Blóðgjöf, langlífi og betri heilsa

Þótt erfitt sé að rannsaka það, þá er einnig til sú kenning að konur lifi almennt lengur en karlmenn vegna þess að þær fara á reglulegar blæðingar og eru því stöðugt að losa járnbirgðir og endurnýja blóðhaginn.

Eins og kuldi, fasta, erfiðar æfingar og annað áreiti á kerfi líkamans hafa ótal jákvæð áhrif á heilsu okkar, langlífi og vellíðan, þá er blóðgjöf enn eitt áreitið á líkamann sem gerir hann sterkari og þrautseigari. Og til að toppa þetta alltsaman, þá eru móttökurnar í Blóðbankanum svo höfðinglegar og hlýjar að það er alltaf góð upplifun af heimsókn þangað.

Gefðu blóð ef þú getur!

Til að mæta þörfum samfélagsins þarf Blóðbankinn um 12.000 blóðgjafir á ári eða 250 blóðgjafa á viku. Haft er samband við 6 -8.000 virka blóðgjafa á ári hverju. Traust og örugg blóðgjöf byggir á heilbrigðum blóðgjöfum. Gott heilsufar er því forsenda blóðgjafar og mikilvægt að kynna sér reglur sem gilda varðandi blóðgjafir. Með því að gefa blóð gefur þú dýrmæta gjöf og getur þannig bjargað mannslífi á einfaldan hátt. Í hverri blóðgjöf er gjöfinni skipt í rauðkornaþykkni, blóðvökva og blóðflögur og því ein gjöf sem getur bjargað 3 einstaklingum. Þar að auki geta blóðgjafar skráð sig á stofnfrumugjafaskrá. Stofnfrumur eru aðallega notaðar í meðferðum við hvítblæði og eitlakrabbameini. Því fleiri sem eru á stofnfrumugjafaskrá, því meiri líkur eru á að réttur gjafi finnist fyrir viðkomandi sjúkling.

Ef þú vilt vita hvort þú getir verið blóðgjafi skaltu bóka þér tíma strax á blodbankinn.is. Það eru forréttindi að geta gefið blóð og því ættu allir sem hafa heilsu til að gefa. Bæði er það einföld leið til að gera mikið gagn fyrir samfélagið og heilsubót fyrir blóðgjafan sjálfan.

Ef þú getur hinsvegar ekki gefið blóð, þá er skynsamlegt að fara í árlega læknisskoðun og biðja um að tekin sé blóðprufa hjá þér til að mæla gildi blóðsins reglulega.

Greinarhöfundur skrifar út frá bestu vitund miðað við fengnar heimildir og er hvorki efnafræðingur, næringarfræðingur né lyfjafræðingur. Lesandi er beðinn um að taka skrifunum með fyrirvara og afla sér heimilda á eigin spýtur og mynda sér skoðun byggða á eigin forsendum.

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here