Frábær árangur á HM í kraftlyftingum

0
529

IPF World Open, heimsmeistaramótið í kraftlyftingum, fór fram síðastliðna viku í Orlando.  Þrír Íslendingar tóku þátt; Júlían K Jóhansson, Viktor Samúelsson og Helga Guðmundsdóttir.

Helga tvíbætti eigið Íslandsmet

923579Helga hóf leik og keppti í -72 kg flokk á föstudaginn, en þetta var hennar annað skipti á heimsmeistaramóti.

Mótið byrjaði erfiðlega hjá henni því hún fékk ekki gildar tvær fyrstu lyfturnar í hnébeygju, þar sem hún reyndi við 185 kg. Í þriðju tilraun gekk þó allt upp og hún náði að lyfta þyngdinni. Helga mætti svo tvíefld til leiks í bekkpressuna sem gekk mjög vel hjá henni. Náði hún að tvíbæta eigið íslandsmet en samtals bætti hún það um um 5 kg. Lyfti hún 132,5 kg í annarri tilraun og gerði svo gott betur í síðustu lyftunni og náði að pressa 135 kg. Í réttstöðulyftu náði hún svo að lyfta 182,5 kg sem var jöfnun á hennar besta árangri.

Samanlagður árangur hennar var því 502,5 kg sem var persónuleg bæting og gaf henni 12. sætið í flokknum. Sigurvegari var Ana Rosa Castellain frá Brasilíu með 638 kg í samanlögðum árangri. Við óskum Helgu til hamingju með árangurinn og glæsilegt íslandsmet.

Viktor í 6.sæti á sínu fyrsta HM

14991273_10209641057397537_8513303527568203238_oViktor steig næstur Íslendinga á svið á laugardaginn.  Þetta er í fyrsta sinn sem Viktor keppir á HM í opnum aldursflokki, en áður hefur hann keppt í drengja- og unglingaflokki með góðum árangri. Hann átti mjög sannfærandi innkomu í flokk fullorðinna, náði sjötta sæti með 1000 kg í samanlögðu ásamt því að slá Norðurlandamet í opnum flokki og fjögur Norðurlandamet unglinga að auki.

Mótið byrjaði, og endaði, vel hjá Viktori. Í hnébeygju bætti hann Íslandsmet Auðuns Jónssonar um 10 kg setti um leið Norðurlandamet unglinga með því að lyfta 375 kg í þriðju tilraun. Í bekkpressu tvíbætti Viktor Norðurlandametið í opnum flokki (og unglingaflokki) með því að lyfta 300 kg í fyrstu tilraun og 307,5 kg í þriðju tilraun eftir að hafa mistekist í annarri tilraun. Í réttstöðu tókst honum svo að lyfta 317,5 kg í annarri tilraun. Samanlagður árangur hans var því 1000 kg, sem er bæting á hans eigin Norðurlandameti í unglingaflokki og landaði honum sjötta sætinu í flokknum á eftir Tékkanum Tomas Sarik sem einnig tók 1000 kg, en sá var léttari að líkamsþyngd. Sigurvegarinn var Úkraínumaðurinn Oleksiy Bychkov, sem bætti heimsmetið með 1125 kg í samanlögðum árangri.

Bekkpressan telst einnig met unglinga í bekkpressu sem stakri grein og sló Viktor því samanlagt 5 Norðurlandamet, fjögur í unglingaflokki og eitt í opnum aldursflokki. Við óskum Viktori til hamingju með metin og frábæra innkomu á svið fullorðinna í kraftlyftingum!

Júlían með gull og nýtt Evrópumet unglinga í réttstöðu

15042189_1411685518843938_6359465631106000238_oSíðastur Íslendinga að keppa var Júlían.  Mótið er hans fyrsta í opnum aldursflokki. Hann hafnaði í fimmta sæti með 1070 kg í samanlögðum árangri og náði gullverðlaunum í réttstöðulyftu með því að lyfta 380 kg, sem er nýtt Evrópumet unglinga, Norðurlandamet unglinga sem og Íslandsmet í opnum aldursflokki.

Í hnébeygju beygði Júlían 385 kg í fyrstu tilraun en mistókst svo tvívegis með 405 kg, sem hefði verið 5 kg bæting á hans besta árangri. Í bekkpressu lyfti hann 305 kg í annarri tilraun, en fékk 315 kg í þriðju ógilda á tæknigalla. Réttstaðan er svo besta grein Júlíans. Þar fór hann létt með 340 kg í fyrstu tilraun, tók svo Evrópumet unglinga með 380 kg í annarri tilraun og átti að lokum heiðarlega tilraun við Heimsmet unglinga, 390 kg, sem hann rétt missti. Með 380 kg réttstöðulyftunni tryggði Júlían sér gullverðlaun í greininni. Samanlagður árangur hans, 1070 kg, landaði honum fimmta sætinu í flokkum, sem verður að teljast frábær árangur á hans fyrsta alþjóðlega stórmóti í opnum aldursflokki. Sigurvegari flokksins var Bandaríkjamaðurinn Blaine Sumner, sem lyfti 1200 kg samanlagt.

Við óskum Júlíani til hamingju með verðlaunin og frábæra innkomu í flokk fullorðinna!

Allar nánari upplýsingar um mótið má finna á heimasíðu Kraftlyftingasambandsins, KRAFT.IS

 

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here