Ósjaldan er auglýst að þú munir uppskera “hármarks árangur” ef þú kaupir einhverja vöru, skráir þig á eitthvað prógram eða kaupir einhverja þjónustu. Hvað þýðir það? Hvað þarft ÞÚ til að ná hármarks árangri? Hvernig má skilgreina hámarks árangur? Er nóg að taka töflu, leggjast upp í sófa og horfa á kviðvöðvana brjótast undan bumbunni?
Mig langar að taka sjálfan mig sem dæmi og telja upp þau atriði sem ég tel að hafi hjálpað mér að ná árangri og hvað ég tel að ég þurfi að gera til að ná enn meiri árangri. Þetta er engan vegin tæmandi listi en þó atriði sem er vert að huga að. Hér er íþrótt notuð sem dæmi en sama á auðvitað við um árangur á öðrum sviðum.
Hugarfar
Númer 1, 2 og 3 þarftu að vilja ná árangri. Ýmsar leiðir eru til að kveikja á viljanum ef hann er ekki þegar til staðar eða ekki nógu mikill. Sem dæmi má nefna að mæta á mót eða keppnir í sportinu, horfa á bíómyndir, lesa greinar og pistla, fara á fyrirlestra, horfa á myndbönd eða lesa efni tengt íþróttinni. Ef þú getur skaltu umkringja þig með eins mörgum sem hafa þetta sama áhugamál og þú getur og reyndu að tengjast einhvers konar samfélagi. Losaðu þig við hugtök eins og “get ekki” og “ómögulegt”.
Raunsæi
Þótt meðbyrinn sé oft mikill í byrjun og upplifunin góð þá er kúrfa árangurs sjaldnast beint uppávið. Passaðu þig að setja þér ekki óraunhæf markmið og áttaðu þig á eigin takmörkum Óraunhæfar væntingar geta bæði skemmt fyrir langtíma árangri og jafnvel orðið til þess að þú missir áhugann.
Umhverfi
Umkringdu þig með eins miklu og þú getur sem heldur þér við efnið. Reyndu að æfa með þeim sem eru betri en þú, breyttu skjámyndinni á tölvunni þinni, gakktu með fylgihluti sem minna þig á markmiðið og sæktu í félagslíf með þeim sem hafa sambærileg markmið eða hugarfar og þú.
Sjálfsagi
Þú getur ekki náð langtíma varanlegum árangri án sjálfsaga. Lærðu að fresta því að verðlauna þér þar til markmiðinu er náð. Með því að temja sér sjálfsaga nærðu að komast yfir afsakanir í hausnum á þér sem reyna að halda aftur af þér. Því meiri árangri sem þú nærð, því auðveldara er að temja sér sjálfsaga því þá veistu hversu góð tilfinning það er að ná settu markmiði. Hugsaðu alltaf: “Hver er besta ákvörðun sem ég get tekið í þessum aðstæðum akkúrat núna”, hvort sem það er val á því hvað skal borða eða hvort þú ætlir á æfingu eða ekki.
Sveigjanleiki
Ef þú finnur þig ekki í íþrótt, prófaðu þá eitthvað annað, ef þú slasast, breyttu æfingum, ekki bara hætta. Ef þú rekst á vegg, ekki bugast, farðu að vinna aukalega í veikleikum eða taktu nokkur hliðarskref. Það að lenda í stöðnun eða hindrunum er hluti af því að ná hámarks árangri. Það eru þeir sem láta það ekki stöðva sig sem virkilega ná árangri, spurðu hvern sem er fremstur á sínu sviði. Gerðu þér grein fyrir því og haltu samt áfram, finndu þér leið til að draga þig áfram, t.d. eitthvað lag sem þú peppast af, setning á vegg, armband, m tilvitnun …hvað sem er. Leiðin að markmiðum er mjög sjaldan bein, hún tekur alltaf yfirleitt mis-krappar beygjur.
Næring / hvíld
Lykilatriði sem margir gleyma. Ef þú hvílist og nærist illa hefur það áhrif á allt sem þú gerir. Drekktu nóg af vatni, amk 2 lítra á dag . Sofðu helst 8 tíma eða taktu “powernap” á daginn ef svefninn er styttri. Ef þú hvílist vel afkastarðu mun meira yfir daginn, færð minni blóðsykurssveiflur, gengur betur á æfingum og í vinnu og ert í betra jafnvægi. Búðu þér til góða vana til að auka vatnsdrykkjuna, t.d. byrja alla daga á 1-2 glösum af vatni, fáðu þér vatnsglas fyrir allar máltíðir, áður en þú færð þér kaffi eða tebolla, þegar þú burstar tennurnar og þegar þú þværð þér um hendurnar. Ef þú býrð til fastar venjur þarftu ekki að muna sérstaklega eftir að fá þér vatn.
Önnur atriði
Skráðu þig í keppnir eða áskorunum, reyndu að draga vini, félaga, maka eða vinnufélaga með þér EF þú telur að það muni hjálpa þér, hjálpað öðrum að ná sínum markmiðum. Fæðubótarefni eru ekki nauðsynleg en þau geta vissulega hjálpað þér til að ná hámarks afköstum og bætingum. Gerðu opinber, skrifleg markmið, veðmál eða áskorun ef það virkar fyrir þig. Vertu eins mikið all-in og þú getur. Gerðu þér góða vana og lífsstíl, ekki taka kúra og skyndilausnir. Og ein áskorun, slökktu á “snooze” – rífðu þig upp!
Haltu áfram að halda áfram!