Fæðubótarefni í hnotskurn

0
556

Það eru sennilega fá lönd sem eru jafn dugleg að neyta fæðubótarefna og við Íslendingar. Vinsælasta fæðubótarefnið er eflaust lýsið okkar góða og margir bæta ýmsum vítamínum og bætiefnum einnig við daglegt mataræði, hvort sem það heitir Fríska mín, Herbalife eða eitthvað annað. Þeir sem stunda íþróttir og líkamsrækt hafa líka úr nægu að velja í flóru uppbyggingarefna og alls kyns orkugjafa, fitusýra og annarra sérhæfðra efna. En allt þetta úrval veltir upp spurningunni hvað við þurfum af fæðubótarefnum og hvort við þurfum þeirra yfir höfuð.

HEILSTEYPT MATARÆÐI
Ef þú neytir fjölbreytts og hreins mataræðis, með nóg af grænmeti, fisk og kjöti í góðum hlutföllum, hóflega skömmtuðum og með reglulegu millibili, hvílist vel og drekkur nóg af vatni ætti mannslíkaminn ekki að þurfa á frekari fæðubót að halda. Ef þú passar einnig að éta ekki unninn mat, sleppir hvítum sykri, sterkju og neitir korns, ávexta (jebb, ávaxta) og feitra mjólkurafurða í hófi ertu í toppmálum.

NÆRINGARSKORTUR
Það er köld staðreynd að í dag er orðið mikið af unnum og erfðabreyttum matvælum sem innihalda minna af næringu og meira af óæskilegum gerviefnum en lífræn matvæli. Lukkulega erum við Íslendingar með mikið úrval af góðum og hreinum matvælum og meira að segja skyndibitastaði með hollu fæði. Engu að síður er mikilvægt fyrir okkur að hugsa um hvaða eldsneyti við erum að fóðra okkur með.

HVAÐ OG HVE MIKIÐ?
Eins og matarvenjur mjög margra eru dag frá degi er full ástæða til að bæta fæðubótarefnum við mataræðið okkar. Hvaða fæðubótarefni og í hvaða magni fer svo eftir því hversu mikið hver og einn þarf. Ef þú stundar líkamsrækt eða hreyfingu er ljóst að þú gengur hraðar á orkubirgðir líkamans og til að koma í veg fyrir stöðnun eða langan endurbótartíma koma fæðubótarefni að gagni. Einnig til að halda blóðsykri uppi á löngum æfingum eða hindra niðurbrot vöðva og fleira mætti telja upp.

STUTT SAMANTEKT UM VINSÆL FÆÐUBÓTAREFNI

PRÓTÍN
Vöðvarnir í líkamanum eru byggðir upp af prótínum og eru samsettir úr 21 amínósýrum, 9 af þeim þarf hann að fá úr fæðunni meðan hann framleiðir hinar sjálfur. Þessar 9 amínósýrur fáum við úr prótínríkri fæðu og getum bætt við betur unnum og einangruðum prótínum með fæðubótarefnum. Því hreinni sem prótínin eru og betur einangruð, því fyrr er líkaminn að vinna úr þeim og því meira nýtir hann af þeim. Rannsóknir sýna að mysuprótín (whey) er skilvirkast til vöðvauppbyggingar beint eftir æfingar meðan til dæmis mjólkurprótín (casein) er lengur að brotna niður og því hentar því betur til dæmis fyrir svefn eða milli mála. Sojaprótein hefur aðra kosti, vinnur til dæmis gegn háu kólesteróli og hefur góð andoxunaráhrif.

AMÍNÓSÝRUR
Meðal þessara 9 nauðsynlegu amínósýra sem líkaminn þarf úr fæðu. Sumar þessara gegna stærra hlutverki en aðrar og helst þrjár; L-Leucine, L-Isoleucine og L-Valine, einu nafni BCAA. Þessar amínósýrur hjálpa við vöðvauppbyggingu.
L-Glutamine er önnur amínósýra og til að mynda bendir margt til þess að Glútamín komi í veg fyrir vöðvaniðurbrot sem á sér stað við ákafar æfingar og stuðlar að hraðari endurbata.

OMEGA 3
Fitusýrur gegna miklu hlutverki fyrir líkamann og hafa ótal rannsóknir sýnt fram á að fæðubót með Omega 3-6-9 fitusýrum sé nauðsynleg, að minnsta kosti fyrir þá sem neita ekki mikils fisks. Omega 6 og 9 fáum við flest nóg af úr olíum, eggjum, hnetum í mataræðinu en Omega 3 síður og því gott að bæta því við sem fæðubót. Jákvæð áhrif á heilastarfsemi, taugakerfið, hjarta- og æðakerfið ásamt bólgueyðandi áhrifum og bættra efnaskipta eru meðal ótal jákvæðra eiginleika Omega 3.

KREATÍN
Kreatín er mjög skilvirkt fæðubótarefni fyrir æfingar. Það veldur því að vöðvafrumur taka í sig meiri vökva og því meiri næringu og súrefni. Kretaín eykur vöðvastyrk og kraft vöðvanna og í mörgum tilfellum verða vöðvarnir fyllri og stærri. Kreatíns skal neytt í hófi og með pásum á 8-12 vikna fresti.

VILLANDI UPPLÝSINGAR
CLA, HMB, Beta Alanine, L-Argenine, R-ALA, ZMA, L-Carnitine og ótalmörg önnur efni eru svo seld sér eða í bland við hvort annað. Hafsjórinn af fæðubótarefnum er í raun endalaus og það er mjög yfirþyrmandi að ætla að kynna sér allt. Það sem þú, neytandinn, þarft að hafa í huga er að flestir framleiðendur á fæðubótarefnum hugsa aðallega um að selja og græða. Þeir gera rannsóknir á því hvaða útlit virkar, hvaða efni eru að fá mesta athygli og hvað selst best hjá samkeppnisaðilum. Oftar en ekki eru 2-3 fyrirtæki leiðandi með rannsóknir á nýjungum og kynna nýjar vörur byggðar á þeim rannsóknum og aðrir fylgja í kjölfarið með ný efni sem eru grautur af öllu sem er vinsælt hvort sem það er skilvirk blanda eða ekki. Þú þarft ekki fæðubótarefni til að ná árangri þótt þau geti vissulega hjálpað til og flýtt árangri.

LÆRÐU Á ÞINN LÍKAMA
Hafðu það einfalt. Byrjaðu á að taka mataræðið í gegn. Þegar þú prófar fæðubótarefni skaltu reyna að hafa það einfalt og prófa helst bara eina nýjung í einu til að finna betur hvort það hjálpi þér eða ekki. Við erum öll mismunandi og tökum mismikið á því í þeim íþróttum sem við stundum. Vertu þinn eigin sérfræðingur um þarfir þíns líkama því enginn annar er hæfari.

Skrifað með fyrirvara á því að greinarhöfundur skrifar út frá bestu vitund miðað við fengnar heimildir og er hvorki efnafræðingur, næringafræðingur né lyfjafræðingur. Lesandi er beðinn um að taka skrifunum með fyrirvara og afla sér heimilda á eigin spýtur og mynda sér skoðun byggða á eigin forsendum.

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here