Framvegisheit, ekki nýársheit

2
587

Það er ekkert auðvelt við að ná árangri. Það eru engar töfralausnir, engar skyndilausnir, engin ein rétt leið, það er ekki þægilegt og það er alls ekki alltaf gaman. Það er samt ríkulega þess virði að setja sér markmið og stefna á árangur!

Bölvun þægindanna
Það vill vera þannig með okkur Vesturlandabúa að við eigum það til að velja auðvelda og þægilega leið í flestum þeim aðstæðum sem koma upp hverju sinni ef við komumst upp með það. Þetta getur átt við nánast hvað sem er, hvort sem það er að slappa af og kveikja á imbanum á kvöldin, sleppa því að fara í ræktina því að þú sofnaðir svo seint, ekki biðja um launahækkun því þú gætir lent í ónáð eða bara hvað sem er. Flestir leitast eftir því að valda ekki usla eða óþarfa breytingum því það gæti truflað hið viðkvæma munstur hversdagslífsins. Afhverju að éta hollt þegar það er svo auðvelt að panta pizzu? Afhverju að taka áhættu þegar þú liggur í þægilegu öryggisneti? Þægindin, eins og allt, eru góð í hófi. Ef við ætlum að ná árangri og bæta lífskjör okkar er ekkert annað í boði en að brjóta þægindarammann og gera eitthvað sem losar okkur úr viðjum slæma vanans.

“Aldrei gleyma því að aðeins dauðir fiskar synda með straumnum”
– Malcom Muggeridge

Markmið
Settu þér markmið með heilsu þína og lífsstíl. Ekki hafa það óraunhæft en heldur ekki svo lítið að þér finnst þú ekkert þurfa að hafa fyrir því. Það er misjafnt hvað hentar hverjum og einum, til dæmis gæti hentað þeim sem stunda lyftingar að stefna á þátttöku í Þrekmótaröðinni, lyftingamóti eða jafnvel fitness. Þeir sem eru fastir í sófanum gætu sett sér markmið að ná að labba eða skokka hring í kringum hverfið sitt undir 20 mínútum eða jafnvel sett stefnuna á 10km í Reykjavíkurmaraþoninu á næsta ári. Skiptir í raun ekki máli hvað það er, bara að það það ýti undir betri árangur og hvetji þig til bætinga. Þó skiptir mjög miklu máli að hafa markmiðin raunhæf, skrifleg og mælanleg. Komdu þér svo í gang með því að gera áætlun sem þú skalt halda þér við í 21 dag (3 vikur), það býr til vana og er mjög raunhæft.

“Hvatningin er það sem kemur þér af stað. Vaninn er það sem drífur þig áfram.”
– Jim ROHn

Uppskera óþæginda
Þú uppskerð það sem þú sáir. En til að sá þarftu að koma þér á fætur og fara á akurinn og byrja að sá …jú eða fara í íþróttagallann og byrja að taka á því! Vöðvarnir í líkamanum eru ekkert mikið að biðja þig um að hreyfa þá ef þú ert ekki með það að vana að æfa. Þú þarft bókstaflega að þvinga þig í gang, koma efnaskiptunum af stað og byggja þér vana. Þetta verður þú bara að vita. Það er yfirleitt þannig að því erfiðari sem æfingin er, því betur líður manni eftir að hafa jafnað sig á átökunum. Líkaminn verðlaunar þér erfiðið með mjög náttúrulegum vímugjafa sem kallast seratónín og er meinhollt fyrir geðheilsuna okkar.

“Allt er erfitt áður en það verður auðvelt”
– Johann Wolfgang v. Goethe 

Ekki nýársheit heldur framvegisheit
Nú styttist í nýtt ár og margir setja sér nýársheit. Það er sjálfsblekking sem við föllum allt of oft fyrir en fylgjum sjaldnast eftir. Í stað þess að ætla að gera næsta ár að einhverju ógurlega miklu breytinga-ári, þarftu að mynda þér hugarfar sem virkar fyrir þig núna. Í stað þess að segja við sjáfan sig; “ég ætla að léttast um 50kíló og komast í frábært form á næsta ári” er skilvirkara að segja til dæmis “í dag er ég hætt/ur að drekka kolvetni og ætla alltaf að taka stigann”. Ekki á morgun, ekki á næsta ári, heldur NÚNA! Ef þú ert ekki tilbúin/n að velja þér hugarfar eða markmið sem þú getur byrjað á strax þá skaltu velja þér betra markmið. Auðvitað virka ekki sömu aðferðir á alla, sumir þurfa einfaldlega að gera veðmál við félagana með mikið í húfi.

“Flest fólk hefur svo miklar áhyggjur af að gera eitthvað stórkostlegt að það gerir alls ekki neitt”
– Derek Sivers 

Fyrirmyndir
Í flestum tilfellum má segja að þú ert þeir sem þú umgengst og ef þér finnst þú ekki lifa þeim lífsstíl sem þú vilt lifa skaltu horfa á þitt nánasta umhverfi. Ef  þú vilt breyta um lífsstíl eða skerpa á árangri er fljótlegasta leiðin að sækja í félagsskap með þeim sem bera það hugafar eða lifa þeim lífsstíl sem þú sækist eftir. Smátt og smátt mun þá hugarfarið þitt smitast af þeirra hegðun og þú ferð að líkjast þeim.

“ÞÚ ERT MEÐALTALIÐ AF ÞEIM FIMM EINSTAKLINGUM SEM ÞÚ UMGENGST MEST”
– JIM ROHN

Töfralausnir
Það eru ENGAR töfralausnir til. Það er engin brennslutafla sem grennir þig, enginn töfradrykkur gerir þig heilbrigða/n, enginn matarkúr, fæðubótarefni eða skyndilausn sem kemur þér í frábært form. Ekki láta auglýsingar og markaðssetningar eða greinar í tímaritum og á netinu blekkja þig. Hugarfarsbreyting og sjálfsagi er það sem kemur þér áleiðis. Með því að ná raunhæfum markmiðum færðu alla þá hvatningu sem þú þarft. Þegar þú étur hollan mat líður þér betur, þegar þú hreyfir þig og æfir og kemst í betra líkamlegt form ferðu að fá meiri löngun í hollari mat og heilbrigðari venjur.

“Orð í dvala, verkin tala”
– Ómar Ómar

2 ATHUGASEMDIR

  1. Fæðubótaefni geta verið mjög gagnleg samt. Prótein, Creatín og Glutamín er t.d. alveg nauðsynlegt ef maður er að lyfta af einhverju viti.

    • Jú vissulega. Ég þekki það mjög vel sjálfur og hef notað fæðubótarefni í mörg ár, mörg með mjög góðum árangri, prótein, kreatín og glútamín þar á meðal. Þau hjálpa til við að ná árangri og flýta í mörgum tilfellum árangri en eru hvergi nærri eins mikilvæg og heilsteypt mataræði og alls ekki nauðsynleg til að ná árangri.

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here