Nýtt þrektæki leit dagsins ljós fyrir stuttu frá Concept 2, sama fyrirtæki og framleiðir vinsælustu innanhúss róðravélar í heimi. Tækið heitir “Ski-Erg” og byggir á svipaðri hreyfingu og ef þú ert að ýta þér áfram á skíðum með skíðastöfum. Hér er stutt kynning á tækinu og kostum þess við æfingar.
Þeir sem þekkja Concept 2 róðravélarnar vita hversu ógurlegar þrekæfingar má framkvæma í þeim og hversu góðar og vandaðar þær eru, í raun “industry standard” fyrir róðravélar og hafa verið það síðan þær komu á markaðinn 1982. En eins mikil bylting það var að geta æft róður í líkamsræktarstöð þá er nú hægt að gera það sama með skíðagöngu, að minnsta kosti þrekhluta æfingarinnar. Nordic Skiing er gríðarlega erfið íþrótt og er mjög vinsæl grein á Vetrar Ólympíuleikunum. Ski Erg er hannað með þessa íþrótt í huga.
- Byggir styrk í efri búk, djúpvöðvum í kvið og fótum.
- Mjög gott þrek-æfinga tæki
- Þjálfar rétta og skilvirka “Nordic Skiing” tækni
Á skíðavélinni er draghjól eins og á róðravélunum, þar sem mótstöðunni er stýrt með því að stilla flæði lofts um hjólið. Þá er einnig sams konar skjár og á róðravélunum þar sem hægt er að mæla árangurinn mjög nákvæmlega. Meðal þess sem skjárinn hefur upp á að bjóða eru nákvæmar upplýsingar um tíma, hraða og afl, ýmis æfingaprógröm, minniskortalesari, USB tölvutenging, púlsmælir og fleira. Einnig er hægt að spila leiki í Ski-Erg og tengja saman vélar fyrir keppni líkt og í róðravélunum.

Sé réttri tækni beitt á skíðavélinni fæst mjög góð alhliða þol og þrekæfing. Hvert einasta tog virkjar handleggi, axlir, kvið og fætur í niðurtoginu, þar sem líkamsþyngd er notuð til að hraða á toginu. Þótt æfingin líti eflaust kjánalega út í fyrstu er þetta alveg fullorðins og tekur svaðalega á allan líkamann.
Greinarhöfundur hafði tækifæri til að prófa græjuna í CrossFit Keppni sem haldin var í Padova á Ítalíu 3.desember sl. og getur kvittað undir ágæti Ski Erg.