Hvernig lyftingar eru hvað?

2
1134

Fáar þjóðir í heiminum aðhyllast öfgum jafn mikið og við Íslendingar og þegar kemur að ræktinni er þar engin undantekning. Það að fara í ræktina og lyfta lóðum er hinsvegar ekki alveg eins einhæft sport og margir halda að það sé.
Nú þegar Anníe Mist er titluð “Hraustasta kona í heimi”, Benedikt Magnússon á þyngstu réttstöðulyftu í heimi og módelfitness er orðið hið nýja “Ungfrú Ísland” er við hæfi að skilgreina mismunandi tegundir lóðalyftinga stuttlega.

 

Vaxtarrækt
Hvað? Þeir sem stunda vaxtarrækt sem keppnisíþrótt keppast við að hafa mikinn vöðvamassa og lágt fituhlutfall. Lyftingaræfingar með miklum þyngdum í bland við brennsluæfingar. Mjög agað og vel úthugsað mataræði skiptir mjög miklu máli. Þrek, styrkur og tækni skiptir minna máli en það skemmir ekki að hafa smá sólbrúnku og vel rakaða fótleggi.
Markmið: Byggja upp flott heildarform í góðum hlutföllum. Fókus á útlit.
Dæmi um keppnir: Mr. Olympia og allar “Fitness” keppnir
Íslenskar hetjur: Magnús Bess

 

 

Kraftlyftingar
Hvað? Hér er keppst við að ná sem mestri samanlagðri þyngd í bekkpressu, réttstöðulyftu og hnébeygju. Tæknin í lyftunum snýr að hámarks lyftigetu líkamans og þjálfunin beinist að því að byggja upp styrk og kraft. Þol og þrek eru ekki markmið hér. Útlitið skiptir ekki máli nema bara að vera hrikalegur!
Markmið: Hámarks samanlögð þyngd í þremur lyftum; Bekkpressu, Réttstöðulyftu og Hnébeygju. Fókus á styrk.
Dæmi um keppnir: Kraftlyftingamót og  allar keppnir með “Powerlifting” í titlinum.
Íslenskar hetjur: Benedikt Magnússon og Auðunn Jónsson

 

 

Ólympískar Lyftingar
Hvað? Mjög staðlaðar æfingar sem krefjast markvissrar þjálfunar í tækni fyrst og fremst. Útlit er algjört aukaatriði fyrir utan fallega framkvæmdar lyftur. Þrek og þol skipta litlu máli hér heldur mikill kraftur og ákafi í hreyfingunum, liðleiki er mikilvægur. Íþróttin byggist á aldargamalli hefð og er þjóðarsport í mörgum löndum.
Markmið: Hámarks þyngd í tveimur lyftum; Jafnhöttun (Clean&Jerk) og Snörun (Snatch). Fókus á tækni og kraft.
Dæmi um keppnir: Ólympíuleikarnir í lyftingum
Íslenskar hetjur: Gísli Kristjánsson og Guðmundur Sigurðsson

 

 

Aflraunir
Hvað? Hámarks afl í margs konar lyftingum þrekraunum. Æfingar snúa að því að byggja upp mikinn heildarstyrk líkt og í Kraftlyftingum en jafnframt hafa mikinn sprengikraft, gott þol og góða tækni. Útlit eru aukaatriði …nema jú, vera hrikalegur auðvitað!
Markmið: Geta til að færa miklar þyngdir langar vegalendir og á góðum tíma. Fókus á afl.
Dæmi um keppnir: The Worlds Strongest Man, Sterkasti maður Íslands og Vestfjarðar Víkingurinn.
Íslenskar hetjur: Jón Páll Sigmarsson og Magnús Ver Magnússon

 

 

CrossFit
Hvað? Þjálfunaráætlun sem felur í sér brot af ótal íþróttum og krefst getu til að framkvæma líkamlegar áskoranir af öllu tagi. CrossFit iðkendur sérhæfa sig ekki í neinu en þjálfa getu í alls konar lyftingum í bland við þrek og tækniæfingar. Í CrossFit eru æfðar allar tegundir lyftinga.
Markmið: Geta til að færa miklar þyngdir langar vegalengdir og á góðum tíma. Sama og í aflraunum nema á umtalsvert stærri skala. Fókus á afl og alhliða líkamlega getu.
Dæmi um keppnir: CrossFit Games og öll mót með “CrossFit” í titlinum.
Íslenskar hetjur: Anníe Mist Þórisdóttir

 

Heilsurækt
Hvað? Almenn líkamsræktariðkun í hefðbundum tækjasal. Áherslan er að þjálfa alla vöðvahópa í bland við fitubrennsluæfingar og þrek. Þetta á við um flesta sem æfa á líkamsræktarstöðvum og áherslan er eins mismunandi og iðkendur eru margir. Útlit er yfirleitt ráðandi hluti hér en almenn vellíðan og heilbrigður lífsstíll einnig. Oft er almenn heilsurækt líka vettvangurinn sem leiðir fólk að sérhæfðari íþróttaiðkunum.
Markmið: Þjálfa styrk og þol til að efla hreysti, bæta útlit, vellíðan og viðhalda heilbrigðum líkama.

2 ATHUGASEMDIR

  1. Ég verð að vera ósammála nokkru þarna 😉

    nr 1. Með vaxtaræktina, þá notast þeir jafnan við 8-25 reps sem myndu ekki kallast fá reps 😉

    nr 2. Sterkasti maður landsins er klárlega ekki kraftlyftingakeppni heldur strongman/aflraunakeppni.

    nr 3. Þol er alls ekkert aukaatriði í aflraunakeppnum. Þol er actually mjög stór hluti af aflraunakeppnunum sbr bændagöngu, trukkadráttur, atlassteinagreinin ásamt mörgum öðrum greinum.

    • Mjög vel séð, þakka góðar athugasemdir.
      nr1. Þetta er auðvitað mjög misjafnt, t.d. í Max-OT lyftingakerfinu er aðallega notast við 4-6 endurtekningar fyrir hámarks vöðvavöxt en sannarlega eru mörg æfingakerfi í gangi, ekkert heilagt hér.
      nr2&3 ..rétt það, leiðrétt hér með 😉
      – Ómar

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here