Fitusýran Omega 3 hefur notið mikilla vinsælda að undanförnu og ekki af ástæðulausu, hún er frábær fæðubót, eiginlega nauðsynleg. En hvað er Omega3? En Omega 3-6-9? Hvaðan kemur hún og afhverju er hún nauðsynleg? Eru allar Omega3 vörur sem eru til sölu eins? …ef ekki, hver er munurinn? Þessum spurningum og fleirum ætla ég að reyna varpa smá ljósi á í þessum örstutta pistli
OMEGA FITUSÝRUR
Omega fitusýrur eru það sem kallast “nauðsynlegar” fitusýrur, sem þýðir einfaldlega að líkaminn framleiðir þær ekki sjálfur en eru þó mjög mikilvægar fyrir efnaskipti í líkamanum. Omega 3 samanstendur af keðjum alfa-linolenic sýra (ALA) sem svo mynda virku efnin DHA og EPA, en hlutfallið á þessum efnum skiptir miklu um sérhæfða kosti Omega 3. Omega 6 og 9 hafa einnig marga kosti en eru þó í ríkara mæli í fæðunni okkar en Omega 3 og því minni þörf á að bæta þeim við fæðuna.
EIGINLEIKAR OMEGA
Sífellt fleiri rannsóknir varpa ljósi á kosti þess að bæta Omega fitusýrum við mataræðið. Omega 3 hefur jákvæð áhrif á heilastarfsemi, augu og liðamót. Rannsóknir sýna fram á læknandi áhrif Omega3 á geðheilsu (ADHD, Alzheimer, þunglyndi…), psoriasis og aðra húðsjúkdóma, astma og meira að segja krabbamein og æxli. Omega 3 dregur úr bólgum og flýtir því endurbata eftir æfingar, hraðar efnaskiptum og hefur góð áhrif á miðtaugakerfið. Það eru stöðugar rannsóknir í gangi og góð áhrif koma stöðugt betur í ljós. Þar að auki vinnur Omega3 gegn slæmu kólesteróli í blóðinu og getur neysla þess dregið úr æðakölkun. Eiginleikar Omega 3 velta þó mikið á uppruna fitusýranna, hreinleika og hlutfalli EPA og DHA.
OMEGA RÍK FÆÐA
Hægt er að fá Omega 3 úr margs konar fæðu, til dæmis feitum fisk (sardínum, lax, makríl, þorsk, túnfisk..), stórum eggjum, ýmsum fræjum og baunum (chia, hamp), ýmsum baunum (linsubaunum), jurtum (hamp), hnetum (pekan, hesli og valhnetum) og jurtaolíum ýmis konar. Einnig er ríkulegt af Omega3 í kjöti af dýrum sem eru fóðruð með grasi, en síður þeim sem eru fóðruð korni líkt og er algengt í sumum löndum. Klárlega hefur feitur fiskur yfirburðina í magni Omega 3 fitusýra og ætti því að vera fastur hlekkur í mataræði okkar.
OMEGA 3, EPA vs DHA
Við höfum þörf fyrir bæði DHA og EPA en eiginleikar þeirra eftir hlutfalli eru þó ekki hinir sömu. Stundum hefur verið sagt “DHA er grindin en EPA er virknin” og vilja menn þá meina að DHA sé okkur mikilvægt til dæmis í þroskun heilans og vexti okkar, sé því mikilvægt fyrir þungaðar konur og ungabörn, en EPA sé okkur nauðsynlegt fyrir heilastarfsemi síðar meir. Ódýrar Omega3 vörur innihalda yfirleitt lágt hlutfall af þessum tveimur efnum.
Omega3 með háu hlutfalli EPA hefur góð áhrif á geðheilsu og skapgerð. Talið er að EPA dragi úr bólgum, hækki magn seratóníns og bæti blóðflæðið í heilanum og hafi því jákvæð áhrif á taugasamskipti hans.
Eitt sem er gott að vita með úrvinnslu líkamans á EPA og DHA er að hann nýtir það hlutfall sem er í vörunni. Þótt þú fáir þér fimmfalt magn af EPA:DHA með hlutfallinu 1:5 þá ertu ekki að fá sömu eiginleika EPA eins og ef þú kaupir EPA:DHA með hlutfallinu 5:1. Það er klárlega gæði umfram magn í þessu samhengi.
Skrifað með fyrirvara á því að greinarhöfundur skrifar út frá bestu vitund miðað við fengnar heimildir og er hvorki efnafræðingur, næringafræðingur né lyfjafræðingur. Lesandi er beðinn um að taka skrifunum með fyrirvara og afla sér heimilda á eigin spýtur og mynda sér skoðun byggða á eigin forsendum.